skrifandinn hefur eitthvað látið á sér standa…en ég held ég verði að duga en ekki drepast!

Ætlaði áðan út að gefa öndunum brauð en eitthvað var nú brauðið orðið skrítið. Ég veit nú ekki hversu skarpt litaskyn þessar endur hafa en þó þær sæju bara svarthvítt hefðu þær hlaupið kvakandi í burtu….svo grænt var brauðið! Ég hætti því snarlega við göngutúrinn og hef setið inni í allan dag. sé reyndar núna að þetta voru kannski bara örlögin að segja mér að halda mig inni….ég hefði áreiðanlega fokið ofan í tjörnina hefði ég hætt mér út! rokrassgat!

reyndar ætti ég kannski að fara í hressingargöngu. fór í afmælisveislu til Kamillu frænku í gær og krakkarnir plötuðu mig í wii. þar sem ég hef aldrei spilað þennan leik áður þurfti að búa til minn karakter. það fór eitthvað fyrir brjóstið á benedikt (5 ára) þegar á skjánum birtist einhver feitabolla sem átti að vera ég, hann sagði í einlægni: „hún er nú bara SMÁ feit!“ (og svo potaði hann í brjóstið á mér)

kannski ég skelli mér bara aftur í jóga? fór í jógatíma á fimmtudaginn og líkaði bara vel. líkaði sérstaklega vel æfingin þegar allir lágu á bakinu með iljar í gólf og áttu að hnykkja taktfast upp mjöðmunum og gefa frá sér stunur! já, þið getið rétt ímyndað ykkur…þetta leit allavegana út fyrir að vera eitthvað allt annað en sakleysislegt jóga! vandræðalegt….

ég gæti kannski líka stofnað pictionary klúbb. held ég brenni mörgum kaloríum við að spila það….ég verð svo svakalega æst. við valdís tókum andstæðingana í bakaríið í gær og unnum með stæl! Orð eins og fyrirvinna, las vegas (teiknað með lokuð augun), mörður…þarf ég að segja meir?

en ætli það sé ekki kominn tími til að læra. fengum út úr fyrsta lokaprófinu á föstudaginn og ég er nú bara þónokkuð sátt. en það þýðir víst ekkert að slaka á….það er alltaf meira og meira! þetta er svona eins og að ganga upp á fjall og þegar maður heldur að maður sé kominn upp á tindinn blasir alltaf nýr við. Já, ég er svona sleip í myndlíkingunum….

Auglýsingar